fbpx

Svar Miðflokkurinn í Reykjavík

Kæru stjórnendur Villikatta,

Við hjá Miðflokknum erum mjög fylgjandi allri dýravernd og dýrahjálp.  Hið óeigingjarna starf sem félagið ykkar sinnir er ómetanlegt og við erum á þeirri skoðun að Reykjavíkurborg eigi að gera samning við félagið eins og fleiri hafa þegar gert.  Munum við í Miðflokknum í Reykjavík beita okkur fyrir því að svo verði.  Ég sem þetta skrifa fyrir hönd Miðflokksins er mikill dýravinur og hef nokkrum sinnum verið beðin um að taka þátt í starfsemi Villikatta. Hef fram að þessu ekki haft tíma til að vera með en lagt eins mikinn tíma og mér er unnt í að koma kisum í ógöngum til aðstoðar.  Þegar kosninga-annríkið er yfirstaðið þá væri ég mikið til í að koma í heimsókn til ykkar, kynna mér starfsemina og spjalla.

Varðandi stefnu í dýravernd þá er málið það að flokkurinn er svo nýr að stefnuskráin ekki fullmótuð ennþá.  Mikilvægi dýraverndar er óumdeilanlegt og mun kafli þar að lútandi verða settur í  stefnu flokksins á landsvísu innan tíðar.

Þetta mál var tekið upp á fundi með frambjóðendum í morgun og ég  beðin um að svara fyrir hönd framboðsins.  Við hlökkum til samstarfs.

Kær kveðja,

Linda Jónsdóttir

  1. sæti Miðflokksins í Reykjavík.

Svar Sjálfstæðisflokkur Árborg

Góðan dag
Stefna D-lista er að vinna eftir samþykktum sem gilda um dýrahald í Árborg, ss samþykkt um kattahald, hundahald og búfjársamþykkt. D-listi hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á velferð dýra, þannig var td á síðasta kjörtímabili komið upp framúrskarandi athvarfi (Loppukot heitir það) fyrir óskiladýr í samráði við fulltrúa dýraverndarsamtaka. Nú nýta einnig tvö önnur sveitarfélög á Suðurlandi athvarf Árborgar.
Einnig var gert hundasleppisvæði við Selfoss sem auðveldar eigendum hunda að leyfa þeim að hreyfa sig í öruggu umhverfi. Á þessu kjörtímabili var sú aðstaða bætt enn frekar með öryggi í huga.
Unnið hefur verið með Taumi, félagi hundaeigenda, að endurbótum á svæðinu. Á stefnuskrá D-lista er að koma upp hundasleppisvæðum við Eyrarbakka og Stokkseyri.
Hvað villt dýr varðar þá hefur verið unnið að því að stemma stigu við fjölgun minks og refs, auk þess sem reynt hefur verið að halda villtum kanínustofni í skefjum. Leitast hefur verið við að fanga villiketti, tekið skal fram að allir hundar og kettir sem dýraeftirlit Árborgar hefur afskipti af og eru ómerkt eru auglýst á vef sveitarfélagsins og leitast við að koma dýrum til skila eftir því sem unnt er.
Fulltrúar D-lista eru jákvæðir fyrir samstarfi við félagið Villiketti um velferð villikatta.
Innan Árborgar er starfrækt fuglafriðland með sérstökum samstarfssamningi Árborgar við Fuglavernd, svo vikið sé að þeirri tegund.
Kveðja,
Ásta Stefánsd

Svar frá Framsóknarflokkinum í Reykjavík

Góðan dag, ég fékk eftirfarandi póst frá ykkur sem ég vil svara svona:

1.  Við frambjóðendur í Framsóknarflokknum í Reykjavík erum dýravinir og viljum koma fram við dýr af virðingu.  Við tökum vel í TNR í Reykjavík og erum tilbúin til viðræðna varðandi samning við Villiketti ef við komumst í borgarstjórn.
2. Stefna framboðs Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur ekki útbúið stefnu í þessum málaflokki.
Bestu þakkir og kveðjur, Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík.

Svar Byggðalistanns í Skagafirði

Góðan daginn Villikettir

Við hjá ByggðaListanum viljum standa vörð um velferð dýra og viljum hafa 1gr. laga um velferð dýra frá árinu 2013 nr.55 að leiðarljósi en í þeim segir eftirfarandi:

  • ,, gr.Markmið.
    Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

 

Dýravelferð er stór málefnaflokkur og oft þegar dýr eru ekki haldin við viðunandi aðstæður eru einhver veikindi umráðamanna ástæðan og því er mikilvægt að félagsþjónustan sé virkjuð í þannig málum. Velferð dýra á þó alltaf að njóta vafans.

 

Varðandi starfsaðferðir hjá félaginu Villikettir teljum við það ekki standast lög um velferð dýra frá árinu 2013 nr.55 að fanga, merkja og skila geltum köttum út í náttúruna. Þegar kettir eru fangaðir og merktir með því að klippa framan af eyrunum í stað þess að örmerkja þá að þá er verið að brjóta 22. gr um Merkingar og skráningarskyldu laga um velferð dýra nr. 55/2013 en þar segir t.d.,, Skylt er að einstaklingsmerkja kanínur, ketti, hunda, geitur, hross, nautgripi, sauðfé og svín.
Matvælastofnun ber ábyrgð á að starfræktir séu gagnagrunnar um skráningu einstaklingsmerkja skv. 1. mgr. Stofnuninni er heimilt að fela öðrum starfrækslu gagnagrunns með samningi.
Við merkingu á dýrum skal nota aðferðir er valda sem minnstum sársauka og takmarka ekki eðlilegt atferli dýranna eða valda þeim óþarfa álagi. „
Einnig segir í 11. grein í reglugerð um velferð gæludýra nr.80/2016 eftirfarandi; ,,Merking og skráning.

Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun.

Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum  tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skrán­ingu dýra sinna. Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.“

 

Að framangreindu viljum við benda á betri lausn við útrýmingu villikatta sem er eftirfarandi; Gera umráðamenn katta meira ábyrga fyrir sínum dýrum. Við viljum upplýsa dýraeigendur og dýralækna um skyldu umráðamanna til þess að örmerkja alla ketti, einnig viljum við gera það að kröfu að tekið sé DNA-sýni úr hverjum skráðum ketti og sett í gagnagrunn sem væri miðlægur þannig að ef kettlingar eða ómerktir kettir á vergangi finnast að þá er hægt að rekja uppruna þeirra. Þessi hugmynd myndi hafa það í för með sér að skráningarkostnaður katta myndi aukast verulega og vera í kringum 20.000.

Svar Píratar Hafnarfirði

Komið sæl
Ég vil þakka ykkur fyrir að hafa samband við okkur og það gleður mig að svara því að við styðjum þetta góða starf sem þið eruð að standa að. Eftirfarandi er stefna Pírata í Hafnarfirði í dýravelferðarmálum:
-Hafnarfjarðarbær opni dýraathvarf fyrir týnd og villt dýr með sólarhringsvakt eða fari í samstarf við nágrannasveitarfélög um slíkt athvarf.
-Stefnt skuli að því að varðveita það starf sem hefur verið unnið að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta í Hafnarfirði í  áframhaldandi samstarfi við félagasamtök. Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta innan bæjarmarka bættur og reynt að stemma stigu við fjölgun þeirra með aðferð TNR (trap, neuter. release).
-Bæta skuli hundasvæði og hundagerði innan bæjarmarkanna.
-Hundasvæði/gerði þurfi að uppfylla lágmarksstærð og öryggiskröfur. Þeim verði fjölgað og markvisst hugað að viðhaldi.-
-Hundagerði skulu vera vönduð og innihalda leiktæki og aðra afþreyingu.
-Í skipulagi á hverfum skuli gera ráð fyrir hundasvæðum/gerðum – huga þarf að lýsingu og aðbúnaði fyrir hundaeigendur til að þeir geti gengið vel um svæðið sjálfir.
-Gera skuli úttekt á hundagjöldum sem sveitarfélagið rukkar, m.t.t. Hvort breyti eigi útfærslu á hundagjöldum og þjónustunni sem er veitt vegna hundahalds í bænum.
-Þjónusta í meindýravörnum og dýravelferðarstarfi verði endurskoðuð og horft sé til dýraverndunarlaga og Hafnarfjarðarbær setji sér stefnu í dýravelferðarmálum til að varðveita fjölbreytaleika dýralífs í bæjarlandinu. Skoða eigi möguleika Hafnarfjarðarbæjar að því að taka virkan þátt í dýravelferð ásamt öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Góðar kveðjur
Hildur Björg Vilhjálmsdóttir
Fyrir hönd Pírata í Hafnarfirði

Svar frá Kvennahreyfingunni

Kvennahreyfingin er nýstofnað stjórnmálaafl og því höfum við ekki haft ráðrúm til þess að full móta stefnu hreyfingarinnar í öllum mikilvægum málaflokkum. Við ákváðum að setja jafnréttismál mennskra borgarbúa á oddinn í þessari kosningabaráttu og miðast aðgerðaráætlun okkar við það.

Dýravelferð er okkur þó mikilvæg og við munum móta okkur skýra stefnu í þeim málum að þessari kosningabaráttu lokinni. Það munum við gera í samráði við sérfræðinga og félagasamtök eins og Villiketti.

Það er ljóst að dýraathvarf vantar fyrir týnd dýr og einnig þarf að stórbæta útivistarsvæði fyrir hunda. Borgin ætti líka að leggja sitt af mörkum í vinnunni við að bæta líf villi- og vergangskatta í Reykjavík.

Kær kveðja,

Svala Hjörleifsdóttir,
frambjóðandi Kvennahreyfingarinnar

Svar frá Vinum Mosfellsbæjar

Eftir því við best vitum er vinnureglan sú að hálfu Mosfellsbæjar að útigangsdýr sem ekki hefur tekist
að bera kennsl á, og koma aftur til eigenda sinna, verið lógað.

Svör Vina Mosfellsbæjar eru þessi:
1) Við höfum ekki mótað okkur stefnu gagnvart villiköttum og útigangsköttum. Komist fulltrúar okkar í bæjarstjórn erum við tilbúin til þess að skoða og kynna okkur reynslu Hafnfirðinga af samningi við Villiketti.
2) Nei, við höfum ekki mótað okkur aðra stefnu en þá að vakta og virða lög um dýravelferð nr. 55/2013.

Kveðja,
f.h. Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson

Svar Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík

1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?
Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í málefnum gæludýra, vergangsdýra eða villtra dýra.
2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?
 Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér almenna stefnu í dýravelferðarmálum, fyrir utan andstöðu við verksmiðjubúskap og harða andstöðu við að náttúrunni sé spillt að óþörfu.
Kv. Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar

Svar Pírata í Reykjavík

1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?
Við erum með tvær stefnur í Reykjavík er lúta að dýravernd, önnur er stefna um dýravelferð og hin er stefna um stofnun dýraþjónustu.
Dýravelferðarstefnan tekur mið að Stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilegan fjölbreytileika ásamt því að við viljum gera betur en svo:
  1. Hundasvæði/gerði a) Hundasvæði/gerði þurfa að uppfylla lágmarksstærð og öryggiskröfur. Þeim verði fjölgað og markvisst hugað að viðhaldi. b) Hundagerði skulu vera vönduð og innihalda leiktæki og aðra afþreyingu. c) Í skipulagi á hverfum skuli gera ráð fyrir hundasvæðum/gerðum – huga þarf að lýsingu og aðbúnaði fyrir hundaeigendur til að ganga vel um svæðið sjálfur.
  2. Stefnt skuli að því að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta í Reykjavík í samstarfi við félagasamtök sem þessu sinna nú. Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta innan borgarmarka bættur og reynt að stemma stigu við fjölgun þeirra með aðferð TNR (trap, neuter. release).
  3. Dýraathvarf verði opnað fyrir týnd og villt dýr með sólarhringsvakt. Í samráði við félagasamtök sem taka að sér þessi dýr eins og staðan er núna.
  4. Meindýravarnir endurskoðaðar (sjá meðfylgjandi árskýrslu frá Meindýraeyði)
  5. a) Veiði á ref verði hætt – skoða með tilliti til gildandi stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika. b) Minnka veiði á mávum og öðrum fuglum sem eru skotnir með tilliti til stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika. c) Ráðist verði í átaksverkefni varðandi kanínur í borginni þar sem íbúar eru hvattir til þess að sleppa ekki kanínum lausum. Ekki verði heimilt að veiða kanínu – heldur verði þær fangaðar og þeim fundið nýtt heimili/griðastaður. d) Selur verður friðaður. Ekki verði heimilt að veiða sel innan borgarmarkanna. Markvisst skuli unnið að fræðslu og aðgerðum til verndunar á sel í samstarfi við Selastofnun Íslands og Húsadýragarðinn.

Við viljum einnig stofna Dýraþjónustu sem mun sjá um öll mál er varða dýr bæði gæludýr og villt dýr með því markmiði að efla eftirlit og þjónustu við gæludýraeigendur og dýr:

  1. Stofnuð verði stjórnsýslueiningin Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar.
  2. Dýraþjónustan beri ábyrgð á þjónustu og samskiptum við gæludýraeigendur, leyfisveitingum og framfylgd samþykkta borgarinnar um gæludýrahald.
  3. Verkefni Hundaeftirlitsins í Reykjavík og verkefni meindýravarna verði færð alfarið undir Dýraþjónustuna, sem og öll önnur verkefni er snúa að dýrum og dýravelferð.
  4. Þjónustuferlar borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði samhliða yfirfærslu til Dýraþjónustunnar alfarið rafvæddir og endurskoðaðir út frá aðferðafræði notendamiðaðrar hönnunar.
  5. Borgin hætti að skrá dýr í gagnagrunna hjá sér og nýti sér þess í stað aðra opinbera gagnagrunna sem fyrir eru, sbr. Dýraauðkenni.
  6. Trygging gegn tjóni þriðja aðila skuli ekki vera bundin tryggingu sem sveitarfélagið býður upp á heldur skuli hún vera valfrjáls.
  7. Samþykktir og gjaldskrár borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði endurskoðaðar í takti við breytt fyrirkomulag. Stefnt skuli að því að samþykktir verði felldar úr gildi eða styttar niður í allra einföldustu grunnatriði.
  8. Jafnframt verði önnur stefnumörkun borgarinnar og stofnanna hennar sem varðar dýrahald tekin til gagngerrar skoðunar, svo sem svigrúm leigjenda í félagslegu húsnæði til dýrahalds.
  9. Víðtækt samráð verði haft við gæludýraeigendur sem og aðra hagsmunaaðila við útfærslu þessa nýja fyrirkomulags.
2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?
 Já það höfum við gert núna í Reykjavík eins og sést á fyrra svari mínu og það er einnig í vinnslu dýravelferðarstefna á landsvísu sem mun vonandi klárast og vera samþykkt innan skamms.
Kær kveðja Valgerður 5. sæti Pírata í Reykjavík.