fbpx

Vaskur er um 12 ára gamall á Austurlandi í leit að heimili.

Kisurnar okkar

Hér getur þú séð nokkrar af þeim kisum hjá okkur sem eru í heimilisleit eða óska eftir fósturfjölskyldum.

Allir kettir og kettlingar á okkar vegum afhendast ormahreinsaðir, bólusettir, örmerktir og geldir/teknir úr sambandi. Fyrir það er greidd hófleg upphæð til að mæta kostnaði, en nánari upplýsingar eru veittar í umsóknarferlinu.

Mikil hreyfing er á kisunum í okkar umsjá og því enda ekki allir kettir og kettlingar hér á vefnum. Þér er velkomið að fylla út umsókn og ef við teljum umsóknina henta ketti eða kettling á okkar vegum þá höfum við samband. Ef þú ert með einhverjar óskir varðandi persónuleika, inni- eða útikött o.s.frv. þá máttu endilega taka það fram í umsókninni. Við gerum okkar besta til að finna heimili við hæfi sem henta kisunum okkar.

Vinsamlega hafðu í huga að öll okkar vinna er unnin í sjálfboðavinnu og því náum við ekki að svara öllum umsóknum. Þér er velkomið að endurnýja umsóknina  til að minna á þig.

Finndu okkur á samfélagsmiðlum

Kettirnir okkar eru staðsettir út um allt land, í kotunum okkar og inni á fósturheimilum þar sem þeir hafa fengið að kynnast heimilislífinu og undirbúa sig fyrir sitt framtíðarheimili.

Við byrjum oft á að auglýsa kisurnar okkar sem eru í heimilisleit á samfélagsmiðlunum okkar. Hver deild Villikatta er með sína eigin síðu á Facebook og Instagram og því er um að gera að finna okkur þar og fylgjast með fréttum ef þú ert að leita að nýjum fjölskyldumeðlim.

Blúnda

Blúnda er 5 ára gömul læða í leit að rólegu heimili

Grásteina - Vesturland

Kyn: Læða

Litur: Grá og hvít

Fæddur: Júní 2022

Persónuleiki: Ákveðin, matgæðingur, leikglöð

Steina (Grásteina) er fyndin týpa. Hún er ákveðin og stjórnsöm við aðrar kisur og lætur alveg vita hver ræður. Myndi henta henni vel að vera prinsessan á bauninni með ekki mjög ungum börnum amk. 

Hún elskar harðfisk og mætir til þeirra sem vanir eru að gefa henni og “rukkar” um skammt. Hún elskar að leika með allskyns dót og eltir laser og finnur sér ýmislegt líka til að leika með. Sýnir útidyrahurðinni áhuga og myndi vilja komast út líka, þegar hún hefur fengið tíma til að aðlagast heimilinu. Henni líkar vel að láta greiða sér, svo lengi sem hún fær harðfisk á meðan.

Snjólfur - Vesturland

Kyn: Fress

Litur: Bröndóttur

Fæddur: Júní 2022

Persónuleiki: Skemmtilegur, rólegur, leikglaður

Snjólfur er ótrúlega skemmtilegur karakter. Hann er bæði mjög rólegur en svo dettur hann í gírinn að leika og er þá ótrúlega fyndinn. Hann vill lítið leika með eitthvað kisudót eða ljós en elskar allt sem rúllar og er því mikill boltakall. Hann tekur þá útrás og hleypur um að slá litla bolta… já eða eiginlega brokkar!

Þegar við leitum að honum er nóg að hrista harðfiskdósina! Snjólfur elskar kisufélagskap og myndi henta með öðrum kisum og myndi líklega vilja komast út eftir að aðlagast nýju heimili.

Ares - Suðurland

Kyn: Fress

Litur: Bröndóttur

Fæddur: Júní 2014

Persónuleiki: Blíður kúrikall, óskar eftir heimili með Blæju vinkonu sinni.

Ares er á tíunda ári, svo unglegur, mjúkur, fallegur í feldi og einstaklega blíður köttur. Hann er vanur að fá að vera útiköttur, en þyrfti allavega að vera inniköttur talsverðan tíma meðan hann aðlagast nýjum aðstæðum. 

Ares elskar að kúra hjá sinni manneskju, helst að liggja ofan á henni og er frábær heimilisköttur. Hann á mjög góða vinkonu sem heitir Blæja, ca fjögurra ára, og ef einhver er að leita að tveimur bestu vinum og ljúflingum þá væri það vissulega best fyrir þau og ósk okkar. 

Hundar eru ekki heppilegir fyrir þau en börn myndu elska þessa dúska.

Jökla - Höfuðborgarsvæðið

Kyn: Læða

Litur: Svört og hvít

Fæddur: 2022

Persónuleiki: Skemmtileg, sjálfstæð, nammigrís

Jökla er um 1,5 árs og er einstaklega skemmtilegur karakter og algjörlega sjálfs síns drottning. Hún hefur tekið það á sig að vera sérlegur öryggisstjóri yfir framkvæmdum sem eru í gangi hinum megin við götuna þar sem hún er á fósturheimili, og eyðir miklum tíma uppi í glugga að fylgjast með öllu sem þar fer fram. 

Þó henni finnist gott að taka lúr þá er fjör í henni og hún elskar að leika með alls kyns spotta og dót. Hún er ekki mikil kelirófa en þyggur þó stundum klór á sínum eigin forsendum. 

Síðast en ekki síst þá er hún mikill nammi unnandi 👌

Jökla þarf rólegt heimili og hentar ekki á heimili með ungum börnum.

Denzel - Suðurland

Kyn: Fress

Litur: Svartur og hvítur

Fæddur: 2021

Persónuleiki: Stór bangsi, elskar klapp, vanur öðrum köttum.

Denzel er talinn vera þriggja ára. Hann fannst á vergangi
á Suðurlandi fyrir ári síðan og enginn gaf sig fram sem eiganda. Denzel er
afskaplega fallegur, svartur og hvítur. Hann er frekar stór köttur og
bangsalegur.

Hann var feiminn framan af en elskar núna klapp og klór
og malar við snertingu útvalinna. Hann er vanur öðrum köttum og býr í kotinu
okkar.

Bandita - Suðurland

Kyn: Læða

Litur: Svört og hvít

Fædd: 2020

Persónuleiki: Ljúf, kelin, róleg og góð.

Bandita er á fjórða ári. Bandita týndist frá heimili sínu á Selfossi fyrir tveimur árum og fyrri eigandi, sem ætlaði að taka hana með sér við flutning erlendis, var búinn að telja hana af. En Bandita birtist óvænt í Hveragerði núna nýlega og leitaði sér hjálpar og reyndi m.a. að bóka sig inn á hótel, en var auðvitað auralaus. 

Bandita er mjög ljúf kisa. Hún vill gjarnan vera í fangi manns, hefur áhuga á leikföngum en matur og hvíld á hlýjum stað er stóra áhugamálið núna. Við höfum ekki haft tök á að kynna hana fyrir öðrum kisum eða börnum en miðað við rólegheitin höldum við að slíkt gengi vel.

Salvador Dalí - Austurland

Kyn: Fress

Litur: Grár og hvítur

Fæddur: 2020

Persónuleiki: Rólegur og kelinn.

Slavador Dalí er u.þ.b. þriggja ára, afskaplega rólegur og kelinn. Hann myndi una sér best sem eini kötturinn á rólegu heimili.

Houdini og Jósefína - Vesturland

Kyn: Fress og læða

Litur: Houdini – svartur með hvítt á trýni, bringu og fótum, Jósefína – svört með smá hvítt á bringu.

Fædd: Houdini – 2017, Jósefína – 2020

Persónuleiki: Bestu vinir, Houdini er rólegur, Jósefína mjög forvitin og leikglöð. Bæði smá feimin.

Houdini er rólegur kisukall sem þykir klappið gott, þrátt fyrir að vera stór er hann frekar lítill í sér.

Jósefína er mjög forvitin og leikglöð lítil skvísa. Hún er ekki mikið fyrir klappið ennþá en er aldrei langt undan til að fylgjast með þvi sem maður gerir. Hún elskar mat og nammi og er mætt strax á svæðið þegar matur er annarsvegar. 

Óskandi væri að þau fengu heimili saman þar sem þau eru frekar hænd af hvoru öðru. 

Séra Sævar - Vesturland

Kyn: Fress

Litur: Bröndóttur og hvítur

Fæddur: september 2021

Persónuleiki: Bangsi inn við beinið, leynilegur nautnaseggur, þarf smá vinnu

Séra Sævar er einstaklega sérstakur köttur. Hann er talin vera 2-3 ára gamall. Hann er mjög sérstakur á fólk. Hann á það til að urra og hvæsa á nýtt fólk en er samt hæstánægður með nammi og mat og þakkar fyrir það með urri og þykir klappið alls ekki slæmt. Það er semsagt leynilegur nautnaseggur inn við beinið sem hann reynir einstaklega mikið að fela. En þegar hann gleymir sér þá kemur framm forvitin kisi sem elskar klapp og kemur hann þá til manns og vill klapp og malar af og til. 

Séra þyrfti heimili sem er tilbúið að vinna með honum a hans hraða og sýna honum þolinmæði til að bangsinn í honum fái að koma fram og njóta sín. Hann hefur umgengist börn og hefur það gengið ágætlega. Heimili með ung börn henta þó ekki. Hann getur verið með öðrum köttum.

Klói - Austurland

Kyn: Fress

Litur: Svartur og hvítur

Fæddur: sirka 2018

Persónuleiki: Feiminn

Klói er um 5 ára gamall svartur og hvítur fress með einstaklega skemmtilegar hvítar tær. Hann hafði verið á vergangi um nokkurt skeið á Seyðisfirði þar sem hann kynntist góðum manni sem gaf honum að borða fyrir utan heimili sitt.

Klói hefur verið hjá okkur í um 2 ár og vill fá að eignast framtíðarheimili.

Hann er pínu feiminn en þiggur klapp þegar hann er farinn að treysta fólkinu, hann verður aftur á móti var um sig ef hann heyrir mikil læti.

Hann þyrfti að komast á rólegt heimili þar sem hann fengi sinn tíma til að aðlagast.

Hann óskar eftir að fá heimili með Vaski vini sínum, en er þó ekki skilyrði.

Vaskur - Austurland

Kyn: Fress

Litur: Gulur og hvítur

Fæddur: sirka 2012 

Persónuleiki: Rólegur, matargat

Vaskur er rólegur og góður köttur á miðjum aldri. Hann var lengi á vergangi áður en hann kom til okkar og er stundum aðeins var um sig ennþá en þykir mjög gott að fá klapp og klór frá þeim sem hann treystir.

Hann er mikið matargat og krefst þess að fá nóg af blautmat og nammi á framtíðarheimili sínu. Vaskur er vanur öðrum köttum en þætti ekkert endilega verra að vera eini kötturinn á heimilinu.

Vaskur bíður spenntur eftir að komast á öruggt og ástríkt heimili þar sem  hann fær alla þá athygli sem hann á skilið.

Blúnda - Suðurnes

Kyn: Læða

Litur: Þrílit

Fædd: sirka 2019

Persónuleiki: Feimin, barnlaust heimili

Blúnda er sirka 4 ára. Hún er mjög feimin en alls ekki grimm. Ef hún liggur í leti eða er mútað með nammi þá fær maður alveg að klappa henni smá en svo á milli þá stekkur hún alveg í burtu þegar maður ætlar að nálgast hana.

Blúnda fékk heimili fyrir nokkrum árum en slapp út og var töluvert lengi úti á vergangi. Hún náðist loksins aftur í apríl 2023, en því miður vegna breyttra aðstæðna á heimilinu endaði hún aftur hjá okkur.

Hún þarf mikla þolinmæði á rólegu og barnlausu heimili.

Kamala - Austurland

Kyn: Læða

Litur: Svört og hvít

Fædd: 2020

Persónuleiki: Til í gott klapp og klór,  hentar ekki á barnaheimili

Kamala er þriggja ára læða sem kom til okkar sem stálpaður villikettlingur frá Seyðisfirði. Henni þykir gott að fá klapp og klór og er yfirleitt til í að leika. 

Hún er vön öðrum köttum en myndi líka una sér vel sem eini kötturinn á heimili. 

Hún hentar ekki á heimili með ungum börnum.

Kamala er búin að vera í heimilisleit síðan í mars 2023.

Lísa - Austurland

Kyn: Læða

Litur: Þrílit

Fædd: júní 2018

Persónuleiki: Forvitin, leikglöð, feimin

Lísa er um 6 ára gömul og kom til okkar eftir að hafa verið á vergangi um langt skeið. Henni finnst gott að fá klapp og klór þegar hún er farin að treysta. Lísa er forvitin og hefur mjög  gaman af því að leika sér.

Hún er vön öðrum köttum en myndi e.t.v. henta betur að vera eina kisan á heimilinu. Lísa þyrfti að komast á rólegt heimili þar sem hún fengi sinn tíma til að aðlagast og henni yrði sýnd þolinmæði. Hún myndi sennilega una sér best sem útiköttur.

Lísa er búin að vera í heimilisleit síðan í mars 2023.

Dimma - Suðurnes

Kyn: Læða

Litur: Svört

Fædd: sirka 2017

Persónuleiki: Elskar nammi, þarf rólegt heimili.

Dimma er búin að vera hjá okkur síðan í febrúar 2022. Hún er ennþá svolítið hvekkt og þarf mikla aðlögun. Það þarf að fara vel að henni og hún er lengi að treysta. Er farin að þiggja klapp og klór. Finnst ekkert betra en smá nammi af og til. Hún þarf að fara á rólegt heimili og nýjir eigendur þurfa að vera tilbúnir að eyða góðum tima í að ná trausti hennar. Hentar ekki á heimili með ungum börnum né með öðrum dýrum.

Dimma er búin að vera í heimilisleit síðan í desember 2022.

Dalmar - Vestmannaeyjar

Kyn: Fress

Litur: Svartur og hvítur

Fæddur:  maí 2020

Persónuleiki: Þarf að vera með annarri kisu á heimili

Þetta er hann Dalmar. Hann er villiköttur sem er að mannast hjá okkur. Hann er enn dáldið smeikur við fólk en við teljum að hann yrði fljótur að venjast fólki á heimili en hjá okkur þar sem margir villikettir eru. Hann leyfir stundum klapp. Við höldum að það væri best ef hann fengi heimili þar sem ljúfur heimiliskisi er fyrir svo hann læri fljótar af honum að fólk getur verið gott. Það er mikill leikur í honum og hann hefur alla burði til að verða góður heimiliskisi á rétta heimilinu.

Dalmar er búinn að vera í heimilisleit síðan í september 2021.

Nokkrar kisur sem hafa fengið heimili í gegnum Villiketti