fbpx

Kynning á Félaginu

Félagið Villikettir


Upplýsingablað um starfshætti félagsins

Hver erum við?
Félagið Villikettir var stofnað snemma árs 2014 til að standa vörð um dýravernd fyrir villta ketti á Íslandi. Ný dýraverndunarlög tóku gildi í byrjun sama árs og voru þau stór bót fyrir dýravernd á Íslandi. Því miður láðist að skerpa nógu vel á réttindum villikatta en þó teljum við að almenn ákvæði nýju laganna falli þeim í hag.
Félagið Villikettir hyggst því, í samræmi við ný dýraverndunarlög, leita úrbóta fyrir villta ketti hér á landi samkvæmt viðurkenndum aðferðum sem hafa skilað árangri í fjölmörgum öðrum löndum.

Hvaða aðferðir notum við?
Við notumst við aðferðina fanga-gelda-skila (e. Trap-neuter-return, eða TNR) sem er alþjóðleg aðferðafræði um hvernig megi mannúðlega takast á við villikattarstofna án þess að aflífa þá. Þá eru mörg búr sett út á svæðin sem þeir hafast við í samtímis, dýrin eru fönguð, geld og sleppt aftur á svæðið ef ekki er um kettlinga eða mjög særð dýr að ræða. Þessar aðferðir hafa gefist sérlega vel í öðrum löndum. Við munum svo sjá til þess að skjól sé á svæðinu og sjálfboðaliðar séu til staðar sem fylgjast með matargjöfum.

Af hverju?
Siðferðisleg rök
Oft er sagt að hægt sé að dæma þjóðfélag eftir því hvernig það kemur fram við þá sem minna mega sín. Lengi hefur íslenskt samfélag litið framhjá vandamálum villikatta, eða litið á þá sem plágu. Samkvæmt virtum heimspekingi, Peter Singer, er þó siðferðislega vafasamt hve oft við setjum þarfir dýra neðar en okkar eigin. Við sem samfélag berum ábyrgð á tilveru villikatta í íslenskri náttúru og það er því okkar að sjá til þess að borin sé virðing fyrir tilverurétt þeirra.
Lagaleg rök
Í 1. gr. nýrra Dýravelferðarlaga segir að markmið þeirra sé að stuðla að velferð dýra, þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta, þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Enn fremur að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt, sem styður tilverurétt villikatta á þeim svæðum sem þeir hafa fundið sér. Í 8. gr. sömu laga er fjallað um hjálparskyldu, að þeim sem verður var við sjúk, særð eða bjargarlaus dýr beri að veita því umönnun eftir föngum. Þetta hlutverk vilja Villikettir taka að sér.
Söguleg rök
TNR hefur verið notuð í fjölmörgum nágrannalöndum okkar. Aðferðin hefur til dæmis verið notuð í Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ein dæmisaga úr villikattasamfélaginu við Stanford University í Bandaríkjunum þar sem dýraverndarsamtök
voru stofnuð til að sannfæra stjórnina um að nota TNR frekar en aflífun. Með tíma hefur stofninum svo fækkað úr yfir 1500 köttum niður í meðfærilegri 200 ketti.
Vísindaleg rök
Margar rannsóknir styðja að TNR sé gagnleg aðferð. Rannsónir sýna fram á allt að 36% fækkun kattastofna á tveimur árum ef aðferðin er notuð og allt að 66% yfir 11 ár. Þá minnka þeir hægt og rólega við eðlilegar dánarorsakir kattanna.
Vistfræðileg rök
Borgarlandið nýtur ýmissa kosta af veru villikatta. Þeir veiða mýs og halda aftur af ágangi rotta og máva (want a rat or a cat). Það hefur einnig verið sýnt fram á að sleppa villiköttum frekar en að aflífa er langtímalausn því þeir halda svæðunum sínum sjálfir og hindra þar með aðra ógelda ketti að festa sér búsetu á þessum svæðum þar sem æti og skjól er að finna og fjölga sér þar.

Hvaða markmið setjum við okkur?
Að kortleggja helstu búsetusvæði villikatta á Íslandi.
Fanga, gelda og sleppa eins mörgum villiköttum og kostur gefst.
Merkja villiketti með alþjóðlegu merki villikatta, smá bútur, 0.5 cm., klipptur af horni vinstra eyra.
Fanga og koma undir læknishendur (til að lækna eða aflífa, eftir atvikum) verulega særðum eða sjúkum villiköttum.
Fanga og koma á heimili ungum kettlingum sem fæðast villtir.
Bæta aðstöðu fyrir villiketti eins og kostur gefst, m.a. með gerð skjóla á svæðunum.
Standa að baki sjálfboðaliðum sem þegar gefa villiköttum fæði á ýmsum svæðum og finna sjálfboðaliða til að sjá um það á öðrum.
Stuðla að því að skerpt verði á lagalegum réttindum villikatta.

Kveðja,
VILLIKETTIR