Lög félagsins

Lög félagsins VILLIKETTIR:
1.gr.
Félagið heitir Villikettir og félagssvæði þess er Ísland.
2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing verði það sama og heimilisfang gjaldkera hverju sinni
3.gr.
Tilgangur félagsins er að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta, stemma stigu við fjölgun
þeirra og vinna að bættu lagaumhverfi fyrir villiketti.
4.gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með eftirfarandi aðgerðum:
• – Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta á svæðinu bættur.
• – Kisurnar verði fangaðar, heilsufarsskoðaðar af dýralækni og kannað hvort þær séu
örmerktar.
• – Fresskettir verði geldir og framkvæmd ófrjósemisaðgerð á læðunum.
• – Við geldingu og ófrjósemisaðgerð skuli dýrin merkt alþjóðlegri merkingu villikatta,
klippt af horni vinstra eyra svo auðvelt verði að greina kettina.
• – Ef dýrið er sárþjáð skal það aflífað á mannúðlegan hátt með aðstoð dýralæknis.
• – Stuðlað verði af aukinni málefnalegri umræðu og fræðslu um stöðu útigangs- og
villikatta.
5.gr.
Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar eða félög sem vilja vinna að bættri og
mannúðlegri meðferð útigangs-og villikatta í samræmi við tilgang og markmið félagsins.
Fullgildir félagsmenn teljast skráðir félagar sem hafa greitt árlegt félagsgjald og verið
meðlimir a.m.k. í þrjá mánuði samfellt. Félagsmenn hafa málfrelsi og tillögurétt á
fundum félagsins. Félagsmönnum er óheimilt að tjá sig opinberlega í nafni félagsins
nema með samþykki stjórnar.
6. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins
árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi.
7. gr.
Aðalfund skal halda fyrir lok apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna
fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.
Tillögur að lagabreytingum verða að berast stjórninni viku fyrir aðalfund og verða tillögurnar
síðan bornar upp á aðalfundi. Einnig skulu framboð til stjórnar berast núgildandi stjórn viku fyrir
boðaðan aðalfund.
Fullgildir meðlimir geta ekki boðið sig fram á fysta aðalfundi eftir að hafa gerst fullgildur
meðlimur heldur á næsta aðalfundi þar eftir.
Nýjir meðlimir geta ekki haft áhrif á eða komið með tillögur að lagabreytingum fyrr en á öðrum
aðalfundi eftir fulla meðlimagildingu. Kjörgengi til stjórnar eru meðlimir sem að hafa haft fulla
meðlimagildingu í 2 ár, nema með samþykki sitjandi stjórnar.
Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða. Allar aðrar samþykktir á aðalfundi verða að
hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.
8.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni og 4 meðstjórnendum, kjörnum á
aðalfundi til eins árs í senn. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal kosið á milli þeirra. Einnig
skal velja 1-5 varamenn í stjórn.
9.gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega í samræmi við
ákvörðun síðastliðins aðalfundar.
10.gr
Styrkir og félagsgjöld af starfssemi félagsins skal varið í að kosta heilsufarsskoðanir, geldingar,
ófrjósemisaðgerðir og ormahreinsun dýranna, ásamt öðrum nauðsynlegum útgjöldum til
velferðar katta. Einnig til fóðurkaupa og til að bæta aðstöðu dýranna á búsvæðum þeira eins og
við á hverju sinni. Jafnframt til kynningar og fræðslu.
11.gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta athvæða og renna
eignir þess í sjóð sem styrkir geldingar á heimilisköttum eða vergangs/villiköttum.
Samþykkt á aðalfundi Villikatta þann 8. maí 2020