fbpx

Lög félagsins

Lög dýraverndunarfélagsins Villikatta

1.gr. 

Félagið heitir Villikettir og félagssvæði þess er Ísland. 

2. gr. 

Heimili félagsins og varnarþing verði það sama og heimilisfang gjaldkera hverju sinni. 

3.gr. 

Tilgangur félagsins er að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta, stemma stigu við fjölgun þeirra og vinna að bættu lagaumhverfi fyrir villiketti. 

4.gr. 

Tilgangi sínum hyggst félagið námeð eftirfarandi aðgerðum: 

 • –  Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta á svæðinu bættur. 
 • –  Kettirnir verði fangaðir, heilsufarsskoðaðir af dýralækni og kannað hvort þeir séu örmerktir. 
 • –  Fresskettir verði geldir og framkvæmd ófrjósemisaðgerð álæðum. 
 • –  Við geldingu og ófrjósemisaðgerð skulu dýrin merkt alþjóðlegri merkingu villikatta, klippt af horni vinstra eyra, sirka 5 mm, svo auðvelt verði að greina kettina og/eða örmerktir.
 • –  Ef dýrið er sárþjáð og dýralæknir leggur til aflífun skal það aflífað á mannúðlegan hátt af dýralækni. 
 • –  Stuðlað verði af aukinni málefnalegri umræðu og fræðslu um stöðu útigangs og villikatta.

5.gr. 

Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar sem vilja vinna að bættri og mannúðlegri meðferð útigangs- og villikatta í samræmi við tilgang og markmið félagsins og hafa náð 18 ára aldri.

Félagasamtök geta orðið styrktaraðilar félagsins.

Félagsmenn teljast skráðir félagar sem hafa greitt árlegt félagsgjald. Félagsmönnum er óheimilt að tjá sig opinberlega í nafni félagsins nema með samþykki stjórnar.

6. gr. 

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi. 

7. gr. 

Aðalfund skal halda fyrir lok apríl ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.

Tillögur að lagabreytingum verða að berast stjórninni viku fyrir aðalfund og verða tillögurnar síðan bornar upp á aðalfundi. Einnig skulu framboð til stjórnar berast sitjandi stjórn viku fyrir boðaðan aðalfund.

Til að geta boðið sig fram til stjórnar eða varastjórnar ásamt því að koma með tillögur að lagabreytingum, þurfa meðlimir að hafa verið skráðir í félagið og greitt félagsgjöld síðustu tveggja ára fyrir aðalfund

Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi. Allar aðrar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:

 1. Fundarstjóri og ritari kosnir. 
 2. Skýrsla stjórnarinnar um störf félagsins undanfarið starfsár.
 3. Reikningar félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
 4. Lagabreytingar ef tillögur liggja fyrir.
 5. Kosning stjórnar og varastjórnar.
 6. Kosning skoðunarmanna sé fulltrúaráð ekki fyrir hendi.
 7. Ákvörðun félagsgjalds.
 8. Önnur mál.

8. gr. 

Stjórn félagsins  skal skipuð fimm aðalmönnum, formanni og fjórum meðstjórnendum ásamt tveimur til fimm varamönnum kjörnum á aðalfundi. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal kosið á milli þeirra. Stjórn kýs sér, varaformann, gjaldkera og ritara á fyrsta fundi eftir aðalfund.  Stjórn og varamenn munu síðan skipta með sér verkum.  

Formaður skal kosinn á aðalfundi til eins árs í senn og meðstjórnendur skulu kosnir tveir í einu til tveggja ára og ganga árlega tveir úr stjórninni á víxl. Aldrei geta gengið úr stjórn nema þrír í einu. Kosið er um þá tvo sem lengst hafa setið og svo hina tvo að ári liðnu.  Ef stjórnarmaður hverfur úr stjórn skal fyrsti varamaður taka við stöðu hans. Varamenn skulu kosnir til eins árs og koma þeir saman fljótlega eftir aðalfund og ákveða sín á milli hver verður fyrsti, annar, þriðji, fjórði og fimmti varamaður. Ákvörðun varastjórnar um röð varamanna skal tilkynna stjórn félagsins eins fljótt og auðið er.

Þannig mun fyrsti varamaður leysa af á stjórnarfundi hvern þann stjórnarmann sem boðar forföll (þ.e. getur hvorki tekið þátt í stjórnarfundi í persónu né í gegnum fjarfundarbúnað) og öðlast þá rétt sem fullgildur stjórnarmeðlimur. Annar varamaður leysir annan stjórnarmann af, ef fleiri en einn stjórnarmaður boðar forföll og svo koll af kolli. Það sama á við ef stjórnarmaður segir sig úr stjórn á miðju kjörtímabili, þá tekur fyrsti varamaður við sæti hans fram að næsta aðalfundi.

8. gr. A Störf stjórnar

Stjórn skal sjá um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög félagsins. 

Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum. Hún skal sjá svo um að fjármál séu jafnan í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna.

Stjórn fylgist með störfum deilda sem starfræktar eru eða kunna að verða.

Stjórn hefur að öðru leyti vakandi áhuga fyrir því, er félaginu má verða til heilla.

8. gr. B Deildir og deildarstjórn

Innan félagsins eru starfræktar deildir um land allt.  Hlutverk hverrar deildar er að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta og stemma stigu við fjölgun þeirra á sínu landsvæði. (sbr. 4.gr.) Hver deild skal hafa deildarstjórn sem skipuð er tveimur til fimm sjálfboðaliðum. Hlutverk deildarstjórnarinnar er að hafa yfirsýn yfir sitt svæði, sjá um samskipti við bæði aðalstjórn sem og þá sem hafa samband við deildina og einnig að sjá um innkaup og bókhald fyrir sína deild.

8. gr. C Fulltrúaráð

Í félaginu skal starfa fulltrúaráð sem skal vera stjórn félagsins ráðgefandi varðandi ýmis stærri málefni sem upp koma hjá félaginu. Í fulltrúaráði situr einn úr hverri deild félagsins. Stjórn hverrar deildar tilnefnir sinn fulltrúa skriflega til stjórnar VILLIKATTA og gildir hún þar til hún er afturkölluð skriflega. Þeir sem eru tilnefndir kjósa sér formann innan fulltrúaráðsins ásamt því að tilnefna ritara innan ráðsins. Formaður fulltrúaráðs boðar til fundar a.m.k einu sinni á ári, fyrir aðalfund, eða eftir því sem þurfa þykir og verður ekki ályktað á fulltrúaráðsfundum um mál sem ekki er getið í fundarboði. Ella skal halda fulltrúaráðsfundi óski meðlimur í fulltrúaráði skriflega eftir því. Fulltrúaráð skal boðað til funda skriflega með minnst viku fyrirvara. Geta skal dagskrár í fundarboði. Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum fulltrúaráðs.

Fundargerðir skulu færðar í gerðarbók og skulu vera aðgengilegar stjórn Villikatta.

Fulltrúaráð skal vera umsjónaraðili með starfsemi félagsins og skal hafa eftirlit með að lögum félagsins og samþykktum sé framfylgt og ber þannig ábyrgð með stjórn félagsins. Fulltrúaráð mun hafa aðgengi að fundargerðum stjórnar til að geta myndað sér skoðun á þeim málum sem þar eru rædd og samþykkt. Fulltrúaráð er félagslegur skoðunarmaður reikninga félagsins. Þeir sem sitja í fulltrúaráði mega ekki eiga sæti í stjórn eða varastjórn.

8. gr. D Trúnaðarráð

Í trúnaðarráði sitja sömu aðilar og eru í fulltrúaráði. Þeir eru tengiliðir sjálfboðaliða um land allt. Sjálfboðaliðum ber að snúa sér til fulltrúa í  trúnaðarráði/fulltrúaráði með umkvartanir sínar vegna starfs síns sem sjálfboðaliði hjá Villiköttum. Fulltrúi ber að leggja málið fyrir Fulltrúaráð á næsta fundi ráðsins, þar sem ráðið tekur málið til efnislegrar umfjöllunar og ýmist afgreiðir það á fundi eða kemur því í réttan farveg innan félagsins.

9. gr. 

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega í samræmi við ákvörðun síðastliðins aðalfundar.

10. gr 

Styrkir, félagsgjöld og samningsbundnar fjárhæðir sem til koma vegna samninga við sveitarfélög skal varið í að kosta heilsufarsskoðanir, geldingar, ófrjósemisaðgerðir, bólusetningar og ormahreinsun dýranna ásamt öðrum nauðsynlegum útgjöldum til velferðar katta svo sem fóðurkaupa og einnig til að bæta aðstöðu dýranna á búsvæðum þeirra eins og við á hverju sinni. Ávallt skal reyna að safna sérstaklega fyrir stærri aðgerðum og skal stjórn félagsins stofna sérstakan sjúkrasjóð sem nýtist til slíkra aðgerða.

11. gr. 

Ákvörðun um slit félagsins getur stjórn félagsins eingöngu lagt fram. Tillöguna skal taka fyrir á aðalfundi og yrði hún að vera samþykkt með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess í sjóð sem styrkir geldingar á heimilisköttum og/eða vergangs-/villiköttum. 

Samþykkt á aðalfundi Villikatta þann 14. apríl  2024