Fósturheimili Villikatta eru af ýmsum toga. Hvort sem þú hefur ákveðið að fóstra fullorðna ketti, veika ketti, kettlingafullar læður eða munaðarlausa kettlinga, þá ert þú velkomin(n) í hópinn. Við höfum góða umsjón með fósturheimilunum okkar og veitum alla þá aðstoð sem þarf. Þú þarft því ekki að vera útlærður kattarsálfræðingur. Allt sem þarf er mikið af þolinmæði og slatta af ást og umhyggju. Kisur taka ekki mikið pláss og því þarftu ekki stórt húsnæði. Við mælum samt með því að kettlingafullar læður séu í sérherbergi.
Það getur verið bæði krefjandi og gefandi að taka kisu í fóstur. Þeir kettir og kettlingar sem eru í umsjá Villikatta geta verið á ýmsum aldri og í ýmis konar ástandi. Sumir þeirra koma úr mjög erfiðum aðstæðum og krefjast töluverðrar vinnu og þolinmæði. Þeir eru mishræddir við manninn og vantar að endurheimta traust og trú. Þú ákveður sjálf(ur) hvaða tíma þú hefur og hvers konar fóstrun þú treystir þér til:
- Fullorðnir kettir. Það eru yfirleitt kettir sem eru búnir að vera á vergangi eða hafa týnst. Ef engar upplýsingar finnast um eiganda, þá er þeim komið í fóstur. Það sem þarf helst að vinna í með fullorðnu kettina er að venja þá aftur við snertingu og nærveru manneskjunnar. Sú vinna getur verið mis erfið og krefjandi. Ef kötturinn er veikur, þarf að sjá um lyfjagjafir eftir þörfum.
- Kettlingafullar læður. Það eru yfirleitt villikattalæður, sem eru ekki vanar manninum. Þær eru hræddar og fela sig gjarnan. Þess vegna er nauðsyn að hafa sérherbergi svo þær komist ekki langt. Læðurnar þurfa ró og næði og aðgang að mat/vatni og kattasandi. Eftir að kettlingarnir fæðast, þarf að “manna þá”. Það þarf að undirbúa þá fyrir sitt framtíðarheimili. Læðurnar eru hjá kettlingunum fyrstu vikurnar, en síðan eru kettlingarnir í þinni umsjá þar til þeir fara á heimili.
- Munaðarlausir kettlingar. Það fer eftir aldri kettlinganna, hversu mikillar vinnu þeir krefjast. Mjög ungir kettlingar þurfa pelagjafir allar sólarhringinn, yngstu á tveggja tíma fresti og svo sjaldnar eftir því sem þeir eldast. Þessi vinna getur verið mjög krefjandi, en hún er líka mjög gefandi. Sú þreyta sem fylgir í byrjun er fljót að gleymast þegar kettlingarnir stækka og þroskast. Ef þú tekur að þér kettling sem er orðinn nokkurra vikna, þá felst vinnan aðallega í því að venja kettlinginn við að umgangast manninn og hlúa vel að honum. Þeim kettlingum geta fylgt lyfjagjafir og dýralæknaheimsóknir.
Það fylgir því mikil ábyrgð að taka að sér kisu í fóstur. Fósturheimilin þurfa sjálf að sjá um allan þann kostnað sem fylgir venjulegu kattarheimilishaldi. Villikettir sjá hins vegar um allan dýralæknakostnað. Ef það eru önnur gæludýr á heimilinu er þess krafist að þau séu bólusett og geld, þar erum við með hag ykkar gæludýrs í huga. Þegar kemur að því að velja framtíðarheimili fyrir kisuna, hefur þitt álit og skoðun töluvert að segja. Þú þekki þína kisu og veist best hvað henni hentar.
- Lágmarksaldur er 20 ára