fbpx

Svar Sjálfstæðisflokkur Fljótsdalshérðas

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina.

Við höfum kynnt okkur niðurstöður við notkun Fanga-Gelda-Skila aðferðarinnar í Noregi t.d. og finnst þetta mjög áhugaverð lausn á vandamáli sem að við metum sem tvíþætt þar sem að fjölgun villikatta er bæði dýravelferðarmál sem og vandamál íbúa sem að búa við ónæði vegna mikils fjölda katta. Við hefðum mikinn áhuga á að ræða við forsvarsmenn ykkar samtaka um hvort að hægt væri að finna samstarfsflöt þar sem að við teljum það mikinn kost að fólk sem að hefur brennandi áhuga á velferð kattanna vinni einmitt í því að bæta hag þeirra.

Almennt varðandi dýravelferð í sveitarfélaginu höfum við sérstaklega rætt okkar á milli velferð villtra dýra og mótun verklagsreglna ef villt dýr finnast slösuð eða veik enda er það á ábyrgð sveitarfélagsins að bregðast við með skjótum hætti og ýmist koma til bjargar eða sjá til mannúðlegrar aflífunar ef þess þarf. Varðandi vergangsketti mundum við gjarnan vilja vera í samstarfi við félagasamtök eins og Villiketti eða Dýrahjálp og reyna að finna þeim sem að möguleiki er að bjarga góð heimili.

Við viljum að vel sé farið með dýr í okkar sveitarfélagi og höfum kynnt okkur aðbúnaðarreglugerðir þær sem að eiga sér stoð í Dýravelferðarlögum og höfum haft þær reglugerðir til viðmiðunar við mótun samþykkta um gæludýrahald. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við heilbrigðiseftirlitið varðandi hunda- og kattahald á Fljótsdalshéraði og við stefnum á að opna útivistarsvæði fyrir hunda í lausagöngu með eigendum sínum á þessu kjörtímabili en það hefur sárlega vantað.

Við vonum að við höfum náð að svara ykkar helstu spurningum og hlökkum til að eiga með ykkur fund á komandi kjörtímabili.