fbpx

Skotið á Grámann með haglabyssu.

Grámann er villiköttur úr Reykjanesbæ sem hefur haldið til við Kölku. Starfsmenn þar hafa veitt honum húsakjól og séð honum fyrir mat. Hann var geldur á vegum Villikatta fyrir um fjórum árum síðan og var þá ansi mikill villingur en er orðinn voða ljúfur og góður með tímanum og kemur alltaf i klapp þegar maður er að henda rusli.
Starfsmenn Kölku tóku eftir því fyrir nokkru síðan Grámann var farinn að haltra og farinn að slappast og orðinn ólíkur sjálfum sér. Hann var hættur að þvo sér og farinn að horast svo að sjálfboðaliðar Villikatta náðu í hann og fóru með til læknis. Í röntgenmyndatöku kom í ljós að hann var með högl víðsvegar um líkamann. Já þið lásuð rétt, einhver hefur skotið á hann með haglabyssu! Búið er að tilkynna þetta til lögreglunnar á Suðurnesjum.
Greyið kallinn er líklega búin að vera með þessi högl í sér í einhverja mánuði og þetta er búið að taka mjög á hann. Hann er með mikla sýkingu og var lagður inn yfir nótt hjá þeim á Dýralæknastofu Suðurnesja þar sem þær hjúkruðu honum. Nú er hann á góðu fósturheimili meðan verið er að skoða hvað hægt er að gera. Næsta skref er að hann fer eftir helgi í röntgen á munni til að sjá hvað er í gangi þar en hann er með slæman tannstein öðrumegin sem þarf að laga og hann er líka með hagl í kinninni sem verður metið hvort hægt sé að taka úr. Fóturinn hans verður skoðaður betur en eitt haglið skaddaði liðband hjá honum.
Hann Grámann er orðinn svo ljúfur og góður og á svo skilið allt það besta og við ætlum að reyna allt til að hjálpa honum. Við munum líka finna honum heimili þar sem hann ætti vonandi extra góð efri ár .
Allt þetta verður þónokkur kostnaður því biðjum við ykkur elsku kisuvinir um hjálp. Margt smátt gerir eitt stórt ❤️

Styrktarreikningur : 0111-26-73030 kt: 710314-1790