fbpx

Svar frá Viðreisn í Hafnarfirði

Góðan daginn

Eftirfarandi er svar til stjórnar villikatta frá Viðreisn í Hafnarfirði.

Svar til stjórnar Villikatta

Viðreisn leggur áherslu á velferð dýra og að lög nr. 55 frá 2013 séu höfð að leiðarljósi í allri vinnu varðandi velferð dýra. Markmið með lögunum er skýrt en í 1. mgr stendur: „…stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Við teljum mikilvægt að heildstæðar lausnir séu skoðaðar varðandi dýrahald og hálfvillt dýr í sveitarfélaginu, Viðreisn í Hafnarfirði hefur til að mynda það á stefnuskránni að koma upp hundagerði í sveitarfélaginu.

Við teljum það áríðandi að í nánustu framtíð starfi sérstakur talsmaður dýra hér á landi og viljum skoða þær leiðir sem Svisslendingar og Austurríkismenn hafa farið. Á stefnuskrá okkar er faglega ráðinn umhverfisfulltrúi í Hafnarfirði og sjáum við fyrir okkur að slíkur fulltrúi fari einnig með dýravernd og verði í samstarfi við samtök í bænum er vinna að dýravernd og verði jafnframt í samstarfi við vistfræðinga, líffræðinga og dýralækna.

Það er mikilvægt að vinna að lausn hvað varðar föngun dýra og viljum við að hægt sé að koma þeim í öruggt skjól eða til eigenda sinna utan hefðbundins vinnutíma eftirlitsaðila. Eins teljum við að finna þurfi heildstæða lausn á skráningu og eftirliti hvort um er að ræða gæludýr eða villiketti. Við í Viðreisn teljum að velferð dýra eigi að sinna af alúð og af fagmennsku, að eftirliti og eftirfylgni sé viðhaft með það í huga að velferð dýra njóti vafans.