fbpx

Svar frá Okkar Hveragerði

Komiði sælir kæru Villikettir og kærar þakkir fyrir bréfið.

Okkur, hjá Okkar Hveragerði, finnst starf ykkar Villikatta frábært og myndum við endilega vilja fá öflugt starf dýraverndunarsamtaka sem þessum, hingað í Hveragerði. Það er mjög mikilvægt að dýrin okkar séu örugg, en hér búa hundar og/eða kettir í nánast hverju húsi. Það skiptir gífurlega miklu máli að hlúa vel að gæludýrum og þar getur Hveragerðisbær bætt ýmislegt. T.d. með því að bæta aðstæður á hundasvæðum bæjarins, bæta starfsemi dýraeftirlitsmanns svo hans meginstarf sé ekki að fanga eftirlitslaus dýr heldur að veita fræðslu og leiðbeiningar til dýraeigenda um meðferð og umgengi um dýrin sem dæmi. Þá skiptir líka miklu máli að til staðar sé öruggt og aðgengilegt athvarf fyrir dýrin í Hveragerði þegar dýraeftirlitsmaður þarf að hafa afskipti af dýrum og taka þau til sín. Villikettir hafa eins verið fangaðir og þeim lógað um leið. Þessu viljum við breyta. Við viljum endilega vera í samstarfi við félagasamtökin Villiketti um að bæta þessi mál og heitasta óskin er að setja upp dýraathvarf.

Með kveðju,

Unnur og Njörður