fbpx

Svar Samfylkingarinnar í Kópavogi

  1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu?

Ágætu dýravinir. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi hafa fylgst með starfi Villikatta utan frá undafarin ár og við berum virðingu fyrir því mikilvægi starfi sem þið hafið sinnt. Við höfum tvímælalaust áhuga á samtali við forsvarsfólk félagsins um málefni villikatta í Kópavogi og hvernig Kópavogsbær getur komið til hjálpar. Samfylkingin í Kópavogi hefur, í sjálfu sér, ekki mótað sér sérstaka stefnu í hvað varðar villt dýr en við teljum að hugmyndafræði Villikatta sé áhugaverð og byggi á mannúðlegri aðferð við fækkun á dýrum sem ganga villt í bæjarfélaginu.

Við teljum að það að halda gæludýr sé mannréttindamál og allar reglur um gæludýrahald beri að líta á út frá mannúð og umburðarlyndi. Fulltrúi Samfylkingarinnar í Velferðarráði lagði nýlega fram tillögu um gæludýrahald í félagslegu húsnæði sem byggir á því að sömu reglur gildi fyrir íbúa í félagslegu húsnæði og aðra íbúa bæjarins:

„Leyfilegt verði að halda hund eða kött í félagslegum íbúðum í eigu Kópavogsbæjar. Leyfið verði háð eftirfarandi skilyrðum:
a) Sé um sameiginlegan inngang að ræða er hunda- og kattahald háð samþykki 2/ 3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. (skv lögum um fjöleignarhús og reglum um katta- og hundahald í Kópavogi).
b) Hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum með sérinngangi er leyfilegt.“

Þess má geta að allar líkur eru á að þessi tillaga verði að veruleika á næstu vikum.

Við teljum þörf á að fjölga sk. sleppigerðum þar sem fólk getur leyft hundum sínum að hlaupa lausir. Hundar hafa almennt þörf fyrir mikla hreyfingu auk þess sem nauðsynlegt er að bjóða þeim upp á samneyti við aðra hunda, án taums.

  1. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum?

Við í Samfylkingunni í Kópavogi teljum að lög og reglur um velferð dýra eigi að vera í stöðugri endurskoðun og við viljum að vel sé hugsað um gæludýr í Kópavogi og gert ráð fyrir þeim í lífi bæjarbúa. Við teljum það skyldu allra að tilkynna það til yfirvalda ef fólk verður vart við illa meðferð á dýrum. Við viljum að Kópavogur sé samfélag sem lætur sér annt um velferð dýra og tekur hana alvarlega. Það er mikilvægt að dýrum sé gert kleift að sýna sitt eðlilega atferli, eins og unnt er og að öryggi þeirra og velferð sé tryggð með lögum, reglum og almennri umhyggju. Dýr auðga samfélag okkar og veita mörgum gleði og við þurfum að sýna þeim virðingu og veita þeim öryggi.

Kær kveðja
Bergljót Kristinsdóttir
Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi