fbpx

Saga Sædísar

Verkefni Villikatta eru eins mismunandi og þau eru mörg og við aðstoðum kisur úr öllum mögulegum aðstæðum, á öllum stigum lífsins. Allt frá því að koma kettlingum á legg að þeirra síðustu stundum.

Sædís á heimaslóðum

Þetta er hún Sædís okkar. Hún fæddist að öllum líkindum úti, en Villikettir höfðu afspurnir af henni sumarið 2017 þar sem hún var úti með kettlinga. Þar sem kettlingar þrífast illa úti í íslenskum aðstæðum var strax farið í að reyna að ná henni og kettlingunum hennar inn í öruggt skjól svo þau gætu öll fengið viðeigandi aðstoð.

En Sædís var lævís og lét ekki ná sér svo auðveldlega. Sjálfboðaliðar Villikatta sátu dögum saman í bílunum sínum til að fylgjast með búrunum sem höfðu verið sett upp. Og nú er spurning, hvort búa villikettir eða sjálfboðaliðar Villikatta yfir meiri þrautseygju og þrjósku? Við hjá Villiköttum gáfum ekkert eftir og að lokum náðum við Sædísi og kettlingunum hennar Matta, Myrkva og Markúsi í hús.

Matti, Myrkvi og Markús komnir inn í öryggið

Sædís sýndi fljótt að fjórir veggir væru ekki henni að skapi. Hún fór fyrst á fósturheimili með kettlingunum sínum en var fljót að sýna útsjónarsemi sína og náði að strjúka úr búrinu sínu. Því var ákveðið að hleypa henni aftur á heimaslóðir eftir að hafa fengið alla helstu læknisaðstoð sem við bjóðum okkar skjólstæðingum – bólusetningu, ormahreinsun og ófrjósemisaðgerð.

Þar hefur hún verið síðan henni var hleypt aftur heim, en á þessum slóðum eru fleiri kettir úr hennar fjölskyldu sem hafa aðgengi að nokkrum gjafastöðum á okkar vegum. Því vissum við að þarna væri hún örugg.

Það var svo núna í vetur sem sjálfboðaliðar tóku eftir að einn af köttunum á þessu svæði virtist vera veikur eða meiddur, með stórt kýli öðrum megin við munninn. Því var ákveðið að ná þessari kisu aftur inn og koma henni til læknis. Þegar hún var komin aftur í okkar hendur kom í ljós að þarna var Sædís okkar komin og fékk hún strax tíma hjá dýralækni.

Því miður þá er það hér sem sögu Sædísar lýkur. Þegar til dýralæknisins var komið kom í ljós að Sædís var með mjög slæma sýkingu í tönn sem var farin að sýkja beinið í kring. Þá var hún einnig með margar skemmdar tennur og var líklega búin að vera mjög slæm mjög lengi og því ljóst að ekki væri hægt að bjarga henni.

Að lokum var tekin sú ótrúlega erfiða ákvörðun að leyfa Sædísi að fara yfir í sumarlandið. Þessi ákvörðun er aldrei tekin án vandlegrar íhugunar og er okkur alltaf jafn erfið. En í samráði við dýralæknin fékk Sædís að sofna svefninum langa.

Sagan hennar Sædísar er ein af hundruðum sagna af kisum sem við aðstoðum dags daglega. Við viljum því minna á að styrktarreikning Villikatta 0111-26-73030, kennitala 710314-1790, en þú getur millifært eða keypt styrk í gegnum netverslunina okkar: