fbpx

Upprifjun á samskiptum VILLIKATTA við MAST árið 2016

Í ljósi frétta um Brúnegg og gagnrýni á MAST sem eftirlitisstofnun þá langar okkur aðeins að rifja upp með ykkur samskipti okkar við þá stofnun á þessu ári vegna 3ja mála sem við tilkynntum til MAST á þessu ári.

  1. 100 katta málið

Í apríl 2016 hafði kona samband við okkur þar sem hún var komin í vanda með offjölgun á köttum. Hún hafði áður átt samskipti við MAST fyrir einhverjum árum og þá voru öll dýrin aflífuð. Konan gat ekki hugsað sér að láta dýrin verða aflífuð og hafði því samband við VILLIKETTI.

Við höfðum samband við MAST og létum vita af þessu og jafnframt að við myndum fara á staðinn og kanna aðstæður því konan hafði heimilað okkur það. Þar voru 100 kettir og 6 hundar.  Mjög slæmt ástand var á staðnum, mikið af veikum köttum og kettlingum, enginn matur né sandur og ekkert rennandi vatn. Í þessari fyrstu ferð þá tókum við 27 ketti með okkur, veikustu dýrin og allar læður með kettlinga.

Við gáfum skýrslu til MAST og lýstum aðstæðum, og báðum þá að fara í málið.  Okkar skilningur var að MAST myndi fljótlega heimsækja heimilið og kanna aðstæður.  En ekkert gerðist vikum saman, svo við sáum okkur tilneyddar til að fara aðra ferð og sækja kettlingafullar læður og fleiri veikar kisur, auk þess að fara með meira af mat, kattasandskassa, bæli og sand, en við reyndum að sjá til þess að dýrin hefðu nóg á meðan við biðum eftir MAST.  Þessi ferð var í lok apríl.   Við létum MAST aftur vita af heimsókninni og aðstæðum.

Enn bjuggumst við við að MAST myndi fara á staðinn og kanna málið. Loks fóru þeir í eina heimsókn og það tók langan tíma að gefa út skýrslu sem send var eigandanum og henni gefinn frestur til úrbóta.  Á meðan áttu dýrin að svelta, deyja og fjölga sér að vild. Við fórum því í 3ju ferðina til að sækja dýr, þann 27.4. og sóttum veikar kisur og fórum með mat og sand.  4. ferðina fórum við stuttu síðar, í apríllok 2016, tókum enn fleiri kisur og ennþá var eigandinn á fresti til að bæta ástandið. Þann 4. maí fórum við í 5. sinn og sóttum fleiri kisur og fórum með mat og sand.   Þann 14. júlí var farið í 6. ferðina og sóttar veikar kisur, kettlingafullar kisur og nýgotnar læður og einnig 4 illa farnir hundar sem hundasamfélagið á Facebook tók upp á sína arma.

Þegar þarna var komið vorum við orðnar ansi súrar út í MAST sem hafði látið ástandið viðgangast síðan í lok mars, 3 og hálfur mánuður án þess að þeir gerðu neitt nema fara í 2 eftirlitisferðir á heimilið, skrifa skýrslu og gefa eiganda frest.  Á meðan voru fárveik dýr á heimilinu sem sultu og kettlingar héldu áfram að fæðast.  Niðurstaðan varð svo sú að það var „okkur“ að kenna að við hefðum farið að skipta okkur af þessu máli, þá var það komið á ábyrgð VILLIKATTA, við sátum uppi með allan kostnað sem af þessu hlaust og ábyrgðina á öllum dýrunum sem við björguðum úr þessum hörmungar aðstæðum.

Í lok júli voru eftir um 25 kisur í húsinu og 2 hundar.   MAST taldi þá ástandið orðið viðundandi og gaf eiganda heimild til að halda þeim dýrum sem eftir voru.  Við ákváðum því að fara með allar kisurnar sem eftir voru í geldingu og var það gert í 3 hollum, þannig gátum við tryggt að þær sem eftir voru myndu a.m.k. ekki halda áfram að fjölga sér.

Það reyndist okkur mjög erfitt að fá upplýsingar frá MAST á meðan á þessu máli stóð, þeir báru við upplýsingarstefnu stofnunarinnar og að stofnunin veitir ekki upplýsingar um aðgerðir hennar í málum sem eru í gangi hverju sinni.

Ábyrgðinni var varpað yfir á félagið Villiketti af því við stigum inn í málið, enda töldum við það skyldu okkar samkvæmt dýraverndarlögum að bjarga dýrum í neyð meðan stofnunin MAST aðhafðist lítið sem ekkert, nema skrifa skýrslur og gefa fresti á kostnað dýranna sem enn dvöldu við hungursneyð og veikindi.

  1. Mál meindýraeyðis sem sagðist hafa fangað 16 villiketti í Hafnarfirði, m.a. eyrnaklippta ketti sem Villiketti höfðu látið gelda í júlí 2016

Annað mál sem við tilkynntum til MAST á árinu var vegna meindýraeyðis sem sagðist hafa fangað 16 villiketti í bæjarlandi Hafnarfjarðar.  Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Hafnarfjarðarbær hafði alls ekki beðið um þessa föngun og ekki heldur Heilbrigðiseftirlitið.  Lögmaður Hafnarfjarðarbæjar og Villikettir sendu sameignilega kvörtun til MAST yfir framferði þessa meindýraeyðis þann 25.7.2016.  Síðan þá hefur lögmaður félagsins ítrekað reynt að fá upplýsingar um gang mála og niðurstöðu en ekki verið svarað.  Nú eru komnir rúmir 4 mánuðir síðan kvörtunin var send og ennþá ENGIN svör.

  1. Mál 6 kettlinga sem hent var út við ruslagám í Njarðvík

Þriðja málið sem við tilkynntum til MAST varðaði 6 kettlinga sem hent var út eins og hverju öðru rusli við gáma í Njarðvík í kringum 11. ágúst 2016. Því máli var vísað til meðferðar á stjórnsýslusvið, og þau áttu að taka ákvörðum um refsingu fyrir þetta brot.  7.11.16 var það mál ennþá í vinnslu á sviðinu þegar grunur kom upp um að aftur hefði kettling verið hent út af þessu heimili og við tókum hann inn.

Stjórn VILLIKATTA þykir ástæða til að MAST endurskoði verkferla sína þegar kemur að dýravelferðarmálum.  Málin dragast allt of lengi og skortur er á viðbrögðum og úrræðum í svona málum. Sveltandi, deyjandi dýr þola ekki að bíða eftir að málið fari í gegnum margra mánaða skriffinskuferli sem svo kannski endar bara með aflífun dýranna vegna þess að önnur úrræði virðast ekki vera fyrir hendi.   Engin dýraathvörf, enginn fjárstyrkur til góðgerðafélaga sem hugsanlega tækju að sér að sinna svona málum, engar lausnir nema aflífun dýranna.

Forstjóri MAST lofaði bótum og betrun í fjölmiðlum, nú er lag fyrir MAST að bæta úr ofantöldum vanköntum og svara þeim erindum sem við nefndum hér að ofan.

Umfjöllun Fjölmiðla um 100 katta málið:
https://www.villikettir.is/2016/07/27/adkoma-villikatta-ad-bjorgun-75-katta-ur-slaemum-adstaedum-a-sudurnesjum-i-mars-2016/

Umfjöllun Fjölmiðla um Meindýraeyðismálið:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/13/villikettir_hugsanlega_felldir_i_leyfisleysi/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/22/utilokar_adkomu_baejarstarfsmanns_3/

 

Umfjöllun um kettlingana 6:
http://www.dv.is/frettir/2016/6/28/sex-kettlingum-hent-eins-og-hverjum-odrum-urgangi/

http://www.vf.is/frettir/kettlingar-skildir-eftir-i-gardaurgangi/70548

Eitt annað mál sem Villikettir komu að snemma á árinu:
http://www.visir.is/-folk-sem-vildi-adstoda-en-var-i-raun-ad-gera-illt-verra-/article/2016160219374

Júlíaa

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deildu þessari færslu á Facebook með því að smella á F hnappinn hér að neðan