fbpx

Bílskúrssala

Bílskúrssala

Villikettir hafa verið með bílskúrsölu á Fiskislólð 79A seinustu tvær helgar og 17 júní. 27. júní verður lokadagur. Endilega kíktu á kjörstað og rendu svo við hjá okkur. Við söfnum fyrir húsnæði og margt smátt gerir eitt stórt. Hlökkum til að sjá þig.

Skotið á Grámann með haglabyssu.

Grámann er villiköttur úr Reykjanesbæ sem hefur haldið til við Kölku. Starfsmenn þar hafa veitt honum húsakjól og séð honum fyrir mat. Hann var geldur á vegum Villikatta fyrir um fjórum árum síðan og var þá ansi mikill villingur en er orðinn voða ljúfur og góður með tímanum og kemur alltaf i klapp þegar maður er að henda rusli.
Starfsmenn Kölku tóku eftir því fyrir nokkru síðan Grámann var farinn að haltra og farinn að slappast og orðinn ólíkur sjálfum sér. Hann var hættur að þvo sér og farinn að horast svo að sjálfboðaliðar Villikatta náðu í hann og fóru með til læknis. Í röntgenmyndatöku kom í ljós að hann var með högl víðsvegar um líkamann. Já þið lásuð rétt, einhver hefur skotið á hann með haglabyssu! Búið er að tilkynna þetta til lögreglunnar á Suðurnesjum.
Greyið kallinn er líklega búin að vera með þessi högl í sér í einhverja mánuði og þetta er búið að taka mjög á hann. Hann er með mikla sýkingu og var lagður inn yfir nótt hjá þeim á Dýralæknastofu Suðurnesja þar sem þær hjúkruðu honum. Nú er hann á góðu fósturheimili meðan verið er að skoða hvað hægt er að gera. Næsta skref er að hann fer eftir helgi í röntgen á munni til að sjá hvað er í gangi þar en hann er með slæman tannstein öðrumegin sem þarf að laga og hann er líka með hagl í kinninni sem verður metið hvort hægt sé að taka úr. Fóturinn hans verður skoðaður betur en eitt haglið skaddaði liðband hjá honum.
Hann Grámann er orðinn svo ljúfur og góður og á svo skilið allt það besta og við ætlum að reyna allt til að hjálpa honum. Við munum líka finna honum heimili þar sem hann ætti vonandi extra góð efri ár .
Allt þetta verður þónokkur kostnaður því biðjum við ykkur elsku kisuvinir um hjálp. Margt smátt gerir eitt stórt ❤️

Styrktarreikningur : 0111-26-73030 kt: 710314-1790

Matur fyrir villiketti

Nú er vetur konungur genginn í garð og harðnar á dalnum hjá villiköttum. Félagið er með fastar matargjafir á þó nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem við sinnum villingunum okkar. Nú er staðan sú að matarbirgðir félagsins eru nánast á þrotum og leitum við því til ykkar kisuvina um aðstoð. Allur kisumatur er vel þeginn bæði blautmatur og þurrmatur. Ef þið eruð aflögufær þá hefur verslunin Gæludýr.is á Smáratorgi tekið við gjöfum til okkar.

Eyrnamerking villikatta – ályktun fagráðs um velferð dýra.

Stjórn Dýraverndunarfélagsins Villikatta vill árétta að Villikettir á Austurlandi brjóta ekki lög um velferð dýra 55/2013 með starfi sínu,  líkt og Fljótsdalshérað vill meina í nýlegri yfirlýsingu sinni varðandi fyrirhuguð fjöldadráp þeirra á ómerktum köttum. Hafa samtökin verið sökuð um að brjóta 23. gr. fyrrnefndra laga þar sem segir: „Óheimilt er að sleppa dýrum sem hafa alist upp hjá mönnum út í náttúruna í þeim tilgangi að þau verði þar til frambúðar“. Villikettir eru fæddir úti, hafa aldrei alist upp hjá mönnum og falla því ekki undir þessi lög. Vergangskettir eru aftur á móti þeir kettir sem alist hafa upp hjá mönnum, átt heimili en síðan týnst eða verið yfirgefnir. Vergangsketti er hæglega hægt að venja við mannfólk á ný og er þeim aldrei sleppt út í náttúruna að nýju. Villikettir eru hræddir við mannfólk, halda sig í öruggri fjarlægð og því er ekki hægt að mannvenja þá nema þeim sé náð mjög ungum.

            Einnig hafa samtökin verið sökuð um að brjóta 16. gr. sömu laga þar sem segir: „Skurðaðgerðir, þar á meðal fjarlæging líkamshluta eða fegrunaraðgerðir, skulu ekki framkvæmdar nema af læknisfræðilegum ástæðum. “ Er þar vísað til þess að samhliða ófrjósemisaðgerð á villiköttum klippir dýralæknir um 3-5 mm af toppi vinstra eyra, en það er alþjóðlegt merki villikatta og gerir fólki kleyft að sjá að þar fari köttur sem búið er að taka úr sambandi og sem sinnt er reglulega, m.a. með matargjöfum.

            Matvælastofnun (MAST) og Villikettir hafa lengi verið á öndverðum meiði varðandi túlkun þessarar lagagreinar og endaði málið hjá atvinnu-og nýsköpunarráðuneyti sem ályktaði að um túlkunaratriði væri að ræða og beindi því til MAST að fá álit fagráðs um velferð dýra, á því hvort eyrnaklippingar á villiköttum væru heimilar. Í úrskurði ráðuneytis segir:

https://www.stjornarradid.is/default.aspx?pageid=0e3c47f7-5369-11e8-9428-005056bc4d74&newsid=2c01b2d8-6071-11e8-942c-005056bc530c&cname=%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Fagráð þetta gegnir m.a. þeim hlutverkum að að vera MAST til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra og að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa MAST um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra. Meirihluti fagráðs mælti með því að slík eyrnamerking yrði heimiluð í þessum ákveðna tilgangi, þ.e. til að bera kennsl á villiketti sem búið er að taka úr sambandi.

Hér fyrir neðan fylgir álit fagráðsins:

Álit á eyrnaklippingum á villiköttum til auðkenningar á því að þeir hafi verið gerðir ófrjóir.

Erna Bjarnadóttir, Henry Alexander Henrysson og Ólafur R. Dýrmundsson, fulltrúar í Fagráði um velferð dýra.

Reykjavík, 12. febrúar 2018

Álitaefni: Með úrskurði dagsettum 8. nóvember 2017 beindi atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið því til Matvælastofnunar að leita álits Fagráðs um velferð dýra um hvort eyrnaklippingar á villiköttum séu heimilar.

Undirritaðir meðlimir í Fagráði um velferð dýra hafa fjallað um málið og komist að eftirfarandi samhljóða niðurstöðu:

Félagið Villikettir kt. 710314-1790, hefur um árabil fangað villiketti og látið gera ófrjóa með þau meginmarkmið að stemma stigu við fjölgun villikatta og draga úr innbyrðis átökum milli þeirra og þar með áverkum vegna þeirra með tilheyrandi þjáningum fyrir viðkomandi dýr.

Ekki er gerð athugasemd við að frjáls félagasamtök færi ómerkt dýr með þessum hætti til að gerð sé á þeim ófrjósemisaðgerð.

Auðkenning villtra eða hálfvilltra katta með grunnri stýfingu (5 mm) á vinstra eyra er þekkt aðferð í ýmsum löndum til að auðvelda að þekkja gelt dýr frá ógeltum. Á sama hátt auðveldar það greiningu þegar ný dýr koma inn á svæði þar sem villikettir eru fyrir, án þess að dýrin séu handsömuð. Undirrituð eru sammála um að góð rök séu fyrir því að þessi auðkenning auðveldi starf þeirra sem beita sér fyrir bættri velferð dýranna og takmörkun á fjölgun þeirra. Einnig séu áhrif á velferð dýranna jákvæð þar sem síður þarf að handsama þau og handleika.

Í 1. tl. 3. gr. reglugerðar um merkingar búfjár nr. 916/2012 segir að undir auðkenningu falli: „Húðflúr, eyrnamark eða merki sem auðkennir býlið“. Ekki verður fallist á þá túlkun Matvælastofnunar að eyrnamörkun falli undir skurðaðgerð til að fjarlægja líkamshluta skv. 16. gr. laga um velferð dýra. Eyrnamarkið er alþjóðlegt auðkenni fyrir villiketti sem þegar hafa verið teknir úr sambandi eða geltir. Á sama hátt og eyrnamark er skilgreint sem auðkenni í reglugerð um merkingar búfjár verður ekki annað séð en að sama eigi við um eyrnamark á köttum sem notað er til auðkenningar í eðlilegum og málefnalegum tilgangi enda valdi mörkunin ekki óþarfa ótta, þjáningu eða sársauka.

Undirrituð telja að heimild til auðkenningar á geltum, villtum og hálfvilltum köttum með þessum hætti falli undir það sem telja má eðlilegan og málefnalegan tilgang, enda gert undir sömu svæfingu og ófrjósemisaðgerð og valdi því dýrinu ekki óþarfa ótta, þjáningu eða sársauka. Við mælum því með að þessi auðkenning verði heimiluð í þessum ákveðna tilgangi.

Erna Bjarnadóttir (sign.)

Henry Alexander Henrysson (sign.)

Ólafur R. Dýrmundsson (sign.)

Dýraverndunarfélagið Villikettir fordæmir afdráttarlaust fyrirhugaðar aðferðir Fljótsdalshéraðs til að fækka ómerktum köttum.

https://www.fljotsdalsherad.is/is/yfirlit-fretta/fongun-villikatta

Hér er viðtal við Sonju Rut sem er fulltrúi Villikatta Austurlandi þar sem hún útskýrir vel hvers vegna fyrirhugaðar aðgerðir eru úreltar og gamaldags vinnubrögð sem eiga ekki að tíðkast árið 2019. https://www.frettabladid.is/frettir/reiin-kraumar-vegna-utrmingar-villikatta-a-herai?fbclid=IwAR1xFKs3tV0qf_2-DMV6K2qc9I_J7TdZ1gpxenONxGHyRKUxG2v

Jólamarkaðir í Desember

Jólamarkaðir í Desember

Félagið verður með jólasölu á nokkrum stöðum í desember.

30.11. – 2.12.: Við byrjum í Jólaþorpinu í Hafnarfirði helgina 30.11. til 2.12.  Opið er í Jólaþorpinu frá kl. 12:00 til 17:00 laugardag og sunnudag

1.12. – 2.12Villikettir í Vestmannaeyjum eru með jólasölu  hjá Jólamarkaðnum í Höllinni Vestmannaeyjum  Laugardag og Sunnudag frá 12-17

8.12.  Villikettir verða með sölubás í Smáralind – opið frá kl. 11:00 til 18:00

16.12. Villikettir verða með sölubás í Kolaportinu – opið frá kl. 11:00 til 17:00

Fleiri söludagar gætu bæst við í desember,  og svo minnum við á vefverslunina okkar hér á síðunni.